Söngnámskeið, CVT grunnnámskeið

Aðdragandinn

Svo lengi er ég man eftir mér, þá hef ég aldrei haft neina trú á því að ég gæti sungið af einhverju viti. Þegar ég var í (skóla)hljómsveit á yngri árum, hafði ég yfirleitt hljóðnema er ég notaði til að radda í. Þess fyrir utan að hafa prófað að vera í skólakórnum sem barn, sungið fullur á sveitaballi eða öðrum svipuðum aðstæðum, þá hef ég lítið gert af því að syngja í gengum árin. Meira að segja þegar söngvarinn hætti hjá okkur og fór burtu í skóla, þá kom upp sú hugmynd að allir hinir í hljómsveitinni myndu prófa að syngja, í þeim tilgangi að hugsanlega finna leyndan Phil Collins. Held ég hafi kannski byrjað á línu tvö áður en ég gafst upp og harðneitaði að taka meiri þátt í þeirri tilfraun.

Hins vegar hef ég verið að raula texta og lagahugmyndir með sjálfum mér og passað upp á að ekki lifandi maður heyrði til mín. Ég reyndar kalla það ekki að syngja heldur. Eftir að ég byrjaði aftur á hljómsveitar bröltinu, þá hef ég aðeins verið að prófa að syngja á æfingum og radda með.

Ef ég hugsa út í það þá held ég samt að löngun til að syngja, hafi aðeins blundað í mér alla tíð. Alla vegna tók ég þá ákvörðun eftir mikla umhugsun og áskorun úr óvæntri átt um að stíga vel út fyrir þægindarammann minn, og endaði á því að skráði mig á 3 mánaða söngnámskeið.

Þegar ég fór í alvöru að íhuga að láta reyna á hvort ég gæti yfir höfuð sungið og þá hvað ég gæti náðu út úr raddböndunum, þá skoðaði ég auglýsingar frá söngkennurum. Ég verð að viðurkenna að ég var nú ekkert að stökkva á eitthvað. Á endanum sá ég auglýsingu frá Söngsteypunni, og sendi ég Ásdísi Fjólu, eiganda og CVT kennara fyrirspurn í pósti. Hún svaraði nokkuð fljótt, er gaf strax smá hnút í magan, þar er hún mælti með því að ég myndi skrá mig í 3 mánaða grunn námskeiðið „Söngur og CVT“. Ég lét vaða og sé ekki eftir því. Mann samt hvernig mér leið þegar ég var kominn með staðfestingu um að ég væri skráður á þetta námskeið og hugsaði „Jæja þá verður ekki aftur snúið!“.

Söngsteypan (Complete – Vocal – Studio)

Námskeiðið „Söngur og CVT“ er hópnámskeið, í mínu tilfelli 10 einstaklingar, á mjög mismunandi aldri og með ólíkan bakgrunn og hugmyndir. En með það eitt sameiginlegt að hafa áhuga á að prófa og læra að syngja. Ég hafði þá hugmynd um að kennt væri að stýra öndun og beita raddböndunum, og vissi að CVT tæknin er talin vera með fullkomnara kerfi til að læra á og beita röddinni. Búinn að lesa mér aðeins til. Alveg frá fyrsta tíma fannst mér ég sjá söng og hugmyndir um söng í nýju ljósi. Að kynnast og læra um „Grundvallaratriðin þrjú“ og „Leiðirnar fjórar“: Neutral, Curbing, Overdrive og Edge. Eins fræðilega og hagnýt útlistun á raddsviði og raddgerð eins og: registerin, flaututónar og lausnir á óviljandi raddbrestum. Skerpum á hlustun og greiningu og mikilvægi líkamlegra æfinga fyrir röddina. Eins var komið inn á „Lit raddarinnar“ og „effekta“. Einn tíminn fór í túlkun er kom virkilega á óvart og var mjög fræðandi, er jók klárlega dýpt okkar í nálgunina að lögunum. Kennararnir voru frábærir. Áhugi þeirra og nálgun frábær. Sjá nánar um námskeiðið og heimasíða Söngsteypunar. Mæli klárlega með þessu námskeiði og þessum skóla. Ef þú ert einhver þarna úti er hefur gælt við þá hugmynd eða langar til að prófa að læra að syngja þá segi ég „Láttu verða af því, þú lifir bara einu sinni, í þessu lífi!“

Mín upplifun af námskeiðinu, í fáum orðum

Með þau orð að leiðarljósi frá kennaranum að “Allir gætu sungið fyrst við gætum talað!” þá valdi ég að byrja á laginu, í fyrsta tíma, er Upplyfting gerði frægt á sínum tíma “Traustur vinur”. Kom það mér mjög á óvart hvað ég var stressaður og hvað það tók á að standa fyrir framan kennarann og aðra í hópnum, þó ég væri búinn að tala við ýmis tækifæri og standa spilandi upp á sviði nokkuð oft. Reyndar mjög persónulegt að standa og syngja þó það sé í lokuðum hópi. Niðurstaðan var svolítið í þá veru eftir fyrsta tíma, öndun og stuðningur ekki réttur.

Næst ákvað ég að fara í rólegri lög og leitaði í smiðju Bjartmars Guðlaugssonar. Með leiðsögn og ábendingum frá kennurunum þá fór maður að sjá aðeins árangur. Eins að fylgjast með öðrum fara í gengum sín lög, kenndi mér helling.

Svo koma að þeim punkti, er var búið að vara mann fyrir, að ég var bara að gefast upp, fannst ekkert ganga hjá mér. „Hvað er ég búinn að koma mér út í!“. Þá ákvað ég nú yrði það allt eða ekkert, svo ég hugsaði af hverju ég væri að þessu, hver væri drifkrafturinn, og úr varð að ég mætti með gítarinn í næstu tíma og mínar laga hugmyndir og tók þær. Það kom mér í gengum þann skafl. Eins mætti ég með frumsamið lag í túlkunar tímann, er var mjög áhugavert að fara að túlka eigin texta og jafnframt mjög persónulegan um leið. Mjög lærdómsríkt. En það er erfiðara fyrir kennarana að kenna þegar um eitthvað frumsamið efni er, nema þá að fara út í að út setja það um leið. Svo ég lagði frá mér gítarinn aftur og prófaði að fara í aðeins erfiðara stöff. Var mér þá hent í Mannakorn lagið „Ég er á leiðinni“, er kom bæði mér og kennaranum á óvart hvernig gekk, þó með erfitt lag.

Hvað svo?

Hvað svo, það er góð spurning. Mér finnst eitthvað vera þarna er ég hef hug á að skoða betur og sjá hvert næsta ævintýri leiðir mig. Finnst ég eiga eftir að læra rosalega margt og prófa. Er ég kominn í einkatíma hjá einum af kennaranum, er mér fannst oftast hafa snúið upp á mig og leitt mig í nýja og óvænta átt. Hlakka til áframhaldsins á þeirri braut og hvað síðan ég nákvæmlega geri með það verður bara að koma síðar í ljós. Eins og ég sagði í upphafi áður en ég byrjaði, þá verð ég alla vegna betri í að radda með hljómsveitinni minni. Eins hef ég hug á því að prófa fleira í þessum skóla. Meira um það síðar. 🙂

Ég vona að ég haldi áfram að fara út fyrir þægindaramman minn í framtíðinni, sem er bæði holt, gott og skemmtilegt.

Til baka