Uncategorized

Í trúnni (kveðja lífsförunautar)

Fjórða lagið mitt er ég kem til með að gefa út og heitir “Í trúnni” er tilbúið. Nú á bara eftir að taka mynd fyrir það og ákveða útgáfudag. Þetta er lag og texti er ég samdi haustið 1996 eða jafnvel fyrr, í kjallara foreldra minna, og þarna er ég að velta fyrir mér hugmyndinni að hvernig væri að kveðja eftirlifandi maka. Svolítið súrelskt, því þarna er ég einhleypur og aðeins 25 ára. Mætti halda að ég hafi verið eiga við þunglyndi, en nei svo var ekki. Hafði reyndar kynnst stúlku er hafði mjög mikil áhrif á mig, en gekk ekki upp, og gaf mér því átakanlegt en mjög þroskandi tímabil í lífi mínu. Þessi hugmynd bara kom.

Þetta lag er því búið að fylgja mér hvað lengst, og hef ég notað það til huggunar þegar ég hef fengið fréttir af fráfalli í kringum mig. Þá hef ég tekið upp gítarinn og raulað þetta lag fyrir sjálfan mig. Hef svolítið haldið upp á þetta lag. Ég hef sýnt þennan texta opinberlega, en lagið hef ég átt fyrir sjálfan mig öll þessi ár, en nú er komið að því að gefa það frá mér og leyfa örðum að njóta ef þess er kosið.

Textinn og lagið býr yfir trúarlegum undirtóni, og er ekki hefðbundið dægurlag. Upphaflega ætlaði ég að henda því hratt í gengum stúdíóið og láta það samanstanda af gítar, söng og kirkjuorgelli. En eftir fyrsta tímann í stúdíóinu, þá fæddist eitthvað stærra. Ég var kominn með hugmyndir af stefi á gítar er var yfirfært yfir á mandolín, og þá komu einhverjir töfrar er áttu eftir að kalla á meira. Lagið hefur síðan kallað á meira þangað til það hljómar eins og það er í dag.

Lagið er tekið upp í HRJ stúdíó, hjá Helga Reyni Jónssyni, eins og lögin á undan. Helgi sér um hljóðfæraleikinn og ég sönginn. Útsetninginn er í höndum okkar beggja.

Ég neita því ekki að ég væri til í að heyra það flutt af kirkjukór, en hvort það raungerist verður framtíðinn að leiða í ljós.

Meira síðar.